Bjarki á 9 höggum undir pari | Þrír jöfnuðu vallarmetið
Bjarki Pétursson GKG er með tveggja högga forystu í karlaflokki fyrir lokahringinn á Íslandsmótinu í höggleik. Lokahringur mótsins fer fram á morgun, sunnudag, á Hlíðavelli í Mosfellsbæ.
Bjarki, sem setti vallarmet á Hlíðavelli á öðrum keppnisdegi, fylgdi eftir góðri spilamennsku með því að leika á 69 höggum í dag eða á 3 höggum undir pari. Hann er því kominn 9 högg undir pari í mótinu og nálgast mótsmetið í karlaflokki sem er 12 högg undir pari.
Skor keppenda í karlaflokki var gríðarlega gott á þriðja keppnisdegi en þeir Hlynur Bergsson GKG, Andri Már Óskarsson GOS og Ragnar Már Ríkarðsson GM jöfnuðu allir vallarmetið sem Bjarki setti á föstudaginn þegar þeir léku á 66 höggum.
Aron Snær Júlíusson var einnig nálægt því að jafna vallarmetið en skolli á lokaholu dagsins þýddi að GKG-ingurinn endaði á 67 höggum og er í 2. sæti fyrir lokahringinn á 7 höggum undir pari.
Keilismennirnir Axel Bóasson og Rúnar Arnórsson deila þriðja sætinu á 5 höggum undir pari. Axel var í miklu stuði á þriðja hringnum og var kominn þrjá undir eftir 13 holur en þrír skollar á síðustu fjórum holunum gerir það að verkum að Axel byrjar lokadaginn fjórum höggum á eftir Bjarka.
Staða efstu manna fyrir lokahringinn:
1. Bjark Pétursson, -9
2. Aron Snær Júlíusson, -7
3. Axel Bóasson, -5
3. Rúnar Arnórsson, -5
5. Hlynur Bergsson, -4
5. Egill Ragnar Gunnarsson, -4
7. Andri Már Óskarsson, -3
7. Ólafur Björn Loftsson, -3
9. Ragnar Már Ríkarðsson, -2
9. Sigurður Bjarki Blumenstein, -2
11. Tómas Eiríksson Hjaltested, -1
Aron Snær Júlíusson er annar.
Rúnar leikur í lokahollinu á morgun.